Opið Bréf til Willum Þórs heilbrigðisráðherra frá Atla Árnasyni heimilislækni - mittval.is

Opið Bréf til Willum Þórs heilbrigðisráðherra frá Atla Árnasyni heimilislækni

Grein Atla Árnasonar heimilslækni í Morgunblaðinu 5. janúar árið 2021

Rétt er einnig að muna að mRNA-sprauturnar og samsetning þeirra við Covid-19 eru ekki hefðbundið bóluefni eins og við þekkjum þau, heldur bóluefni, sem enn er í tilraunafasa og á neyðarleyfi. Framleiðendur verða samkvæmt samningum ekki gerðir ábyrgir fyrir afleiðingum og aukaverkunum heldur viðkomandi stjórnvöld og upplýst samþykki þeirra sem fá sprauturnar eða forráðamanna þeirra. Merkilegt að ekki skuli hafa formlega verið gengið frá því hingað til.Við þessar aðstæður hlýtur krafan að vera sú að farið sé fram af hámarksvarfærni með notkun bóluefnisins sérstaklega hjá börnum og þunguðum konum.


Þau bóluefni sem verið er að nota eru alls ekki fullrannsökuð með tilliti til aukaverkana né mögulegs langtímaskaða.

Mér finnst það hreinlega rangt að halda því fram! Það liggur m.a. í orðinu „langtími“ og á ekki að þurfa að deila um það þótt í hita leiksins tali menn eins og þau séu fullkomlega örugg. Ég hef einnig verið mjög hugsi yfir viðbrögðum yfirvalda við mögulegum aukaverkunum af sprautunum.

Miðað við það sem ég þekkti úr eigin starfsreynslu af þriggja fasa rannsóknum lyfja þá er sönnunarbyrðinni núna eiginlega snúið við gagnvart bóluefnunum. Það þurfi nú að sanna „glæpinn“ á lyfið (sprautuna) í stað þess að ganga út frá því að nýtt ófyrirséð ástand í heilsunni sé lyfinu að kenna þangað til annað sannast. Mér finnst á stundum kappið og dugnaðurinn við framkvæmd bólusetninganna bera forsjána ofurliði.


Opið bréf til Willum Þórs heilbrigðisráðherra


Ágæti Willum Þór!

Ég vil nota tækifærið í upphafi þessa bréfs að óska þér alls velfarnaðar í nýju starfi og hef fulla trú á því að þú munir standa þig vel í starfi heilbrigðisráðherra þjóðinni til hagsbóta. Vegna einhliða opinbers málflutnings í fjölmiðlum í tengslum við fyrirhugaðar Covid-19-bólusetningar 5-11 ára barna tel ég mig, heimilislækni með áratuga starfsreynslu og mikinn áhuga á bólusetningum og smitsjúkdómum, því miður knúinn til að leggja hér orð í belg með hagsmuni barnanna að leiðarljósi.

Erindið er að biðja þig um að endurskoða frá grunni ákvarðanir um að bjóða Covid-19-bólusetningu, sem sannanlega hefur lélega smitvörn gagnvart núríkjandi afbrigði Ómíkron, fyrir öll þessi börn án tillits til áhættu barnanna af því að fá Covid-19-sýkingu af afbrigðinu.


Þegar ákvörðunin var tekin um bólusetningu þessa aldurshóps hér og á öðrum Vesturlöndum, voru allt aðrar aðstæður og tölulegar staðreyndir heldur en blasa við í dag.

Svo kom Ómíkron og þegar þetta er skrifað er Ómíkron þegar >90% greindra smita á Íslandi og á góðri leið með að ryðja öðrum afbrigðum Covid-19 burt (sbr. nýjar UK-tölur frá 24. des.).

Nú er Ómíkron-afbrigðið af Covid-19 svo nýtt að allir eru enn að safna gögnum. Tölfræðileg gögn okkar á Íslandi eru að mínu mati sennilega betri en í flestum öðrum löndum.

Hér er tekið mikið af PCR-prófum og öll jákvæð sýni ræktuð og flokkuð og greind á hraðasta hátt miðlægt með aðstoð Íslenskrar erfðagreiningar. Meginrök mín í þessu bréfi byggjast einmitt á þeim gögnum og þeirri tölfræði sem birtist á covid.is.

Sé þar horft á töfluna um 14 daga nýgengi/100000 og um leið þá staðreynd að Ómíkron sé nýorðið ríkjandi afbrigði sést að virkni sprautanna gagnvart Ómíkron-smiti er mjög léleg. Þar sést að nýgengi smits „fullbólusettra“ fullorðinna er langhæst og hefur frá 22. nóv. til 29. des. 5,5-faldast (550%) en smit örvunarhópsins hefur á sama tíma 17-faldast (1.700%). Á sama tíma hafa „ekki fullbólusettir fullorðnir“ aðeins 1,7-faldast (70%).


Sama tilhneiging gildir um „ekki fullbólusett börn“. Þetta geta allir leikir sem lærðir lesið sjálfir á covid.is og er ekki flókið og eru þá væntanlega ekki neinar „falsfréttir“.

Jafnframt er núverandi hallatala á kúrfunum, fyrir alla flokka bólusettra og óbólusettra, að stefna í mjög svipaða átt frá því Ómíkron byrjaði að koma inn af krafti í okkar tölum í byrjun desember. Nema að „fullbólusettir fullorðnir“ virðast enn þá smitast hlutfallslega mest af Ómíkron. Þetta segir að mínu mati einfaldlega að allt bendir til þess að sprauturnar hafi hverfandi verndaráhrif gegn smiti af Ómíkron.

Af þessu leiðir að rök fyrir því að sprauta börn 5-11 ára með því að nota núverandi Pfizer-bóluefni til að verjast Ómíkron-smitdreifingu halda að mínu mati ekki vatni. Þá sitja mögulega eftir rökin um að bóluefnin verji 5-11 ára börnin vel fyrir Covid-19-aukaverkunum af völdum Ómíkron-smits!


Sprauturnar almennt sem vörn gegn fylgikvillum Covid-19 hjá fullorðnum virðast hafa sannað sig varðandi fyrri afbrigði Covid (t.d. Delta) og því betur sem fleiri bólusetningar (örvun) eru gerðar.

Alls ósannað er hins vegar enn að svo sé einnig með Ómíkron, t.d. sést að munurinn á nýgengi (covid19.is) sjúkrahúsinnlagna hjá „fullbólusettum“ annars vegar og svo örvuðum, fer nú hratt minnkandi. Munurinn var sexfaldur (600%) um 22. nóv. en er nú 28. des. tæplega tvöfaldur (200%).

Þessi minnkun áhrifa gæti orsakast af Ómíkron-áhrifum og verður fróðlegt að sjá hvort hann hverfi mögulega á næstu vikum.

Nú þegar eru > 3600 greind smit í þessum aldursflokki af um 32 þúsund barna hópi. Ekki er ólíklegt að þegar kemur að ætlaðri framkvæmd sprautanna hafi mögulega 3.000 börn greinst í viðbót.

Það er svo óreiknaður fjöldi sem smitast og er ekki greindur (einkennalaus mögulega 50%) en blóðrannsóknir gætu sannað fyrri sýkingu. Þannig gætu allt að 30% 5-11 ára árgangs þegar verið smituð.


Það er að mínu mati fagleg áhætta, jafnvel fífldirfska eða mögulega faglegur hroki, að ætla sér að sprauta börn með efni sem er með neyðarleyfi (sé ekki neyðina almennt fyrir heilbrigð börn) til notkunar og ekki til langtímarannsóknir á mögulegri skaðsemi efnanna fyrir þau börn 5-11 ára sem þegar hafa fengið Covid-19 og ekki orðið meint af.


Þannig virðist vera talið af yfirvöldum að við getum gert betur en náttúruleg góð varnarviðbrögð ónæmiskerfis barnsins í frekari verndun þess.

Það ætti því að vera að mínu mati lágmarkskrafa að sýkingarstatus allra barna gagnvart Covid-19 á þessum aldri sem ekki hafa þegar sannað smit sé kannaður með blóðrannsókn hjá þeim sem ætla að þiggja bólusetninguna áður en hún er framkvæmd.

Ekki má svo gleyma því að það tekur svo alla vega 6-8 vikur að byggja upp vörn miðað við tvær sprautur gefnar með lágmark þriggja vikna bili á milli sprauta.

Þá ætti að mínu mati stærsti hluti Ómíkron-bylgjunnar að vera genginn yfir.

Rétt er einnig að muna að mRNA-sprauturnar og samsetning þeirra við Covid-19 eru ekki hefðbundið bóluefni eins og við þekkjum þau, heldur bóluefni, sem enn er í tilraunafasa og á neyðarleyfi.

Framleiðendur verða samkvæmt samningum ekki gerðir ábyrgir fyrir afleiðingum og aukaverkunum heldur viðkomandi stjórnvöld og upplýst samþykki þeirra sem fá sprauturnar eða forráðamanna þeirra. Merkilegt að ekki skuli hafa formlega verið gengið frá því hingað til.

Við þessar aðstæður hlýtur krafan að vera sú að farið sé fram af hámarksvarfærni með notkun bóluefnisins sérstaklega hjá börnum og þunguðum konum.


SAMANDREGIÐ

I. Miðað við þegar þekktan Covid-19-sýkingarfjölda barna 5-11 ára ætti að vera búið að leggja inn nálægt 20 börn nú þegar á spítala samkvæmt spá en samkvæmt landlækni nýlega hefur ekkert barn á þessum aldri verið lagt hér inn á spítala.

  • Þetta er okkar raunveruleiki miðað við upptaldar ECDC-tölur og ég fullyrði að okkar tölur eru áreiðanlegri ef eitthvað er að ég tali nú ekki um flokkun afbrigða.
  • Þannig virðumst við ætla að sleppa mikið betur í þessum faröldrum af Covid-19 og Ómíkron-afbrigðinu en þær spátölur sem lagðar hafa verið fram af yfirvöldum sóttvarna og áttu að réttlæta sprauturnar.

II. Ljóst er að smitvörnin er mjög léleg með núverandi bóluefnum. Á móti kemur að vörn bóluefnanna gegn fylgikvillum Covid-19 af völdum Ómíkron getur verið mikilvæg þótt ósannað sé fyrir Ómíkron-afbrigðið í dag.

  • Gera þarf nýja opinbera áhættugreiningu, fyrir annars vegar fullfrísk börn og svo hins vegar börn í áhættuflokkum, gagnvart Covid-sýkingum af völdum Ómíkron.
  • Þá greiningu þarf að bera saman við skammtíma- og langtímaáhættu af innihaldi sprautanna fyrir 5-11 ára börn. Staðan væri mögulega öðruvísi ef við hefðum bóluefni sem ver vel gegn smiti af Ómíkron-afbrigðinu en svo er því miður ekki.

III. Þau bóluefni sem verið er að nota eru alls ekki fullrannsökuð með tilliti til aukaverkana né mögulegs langtímaskaða.

Mér finnst það hreinlega rangt að halda því fram!

Það liggur m.a. í orðinu „langtími“ og á ekki að þurfa að deila um það þótt í hita leiksins tali menn eins og þau séu fullkomlega örugg.

Ég hef einnig verið mjög hugsi yfir viðbrögðum yfirvalda við mögulegum aukaverkunum af sprautunum.

Miðað við það sem ég þekkti úr eigin starfsreynslu af þriggja fasa rannsóknum lyfja þá er sönnunarbyrðinni núna eiginlega snúið við gagnvart bóluefnunum.

Það þurfi nú að sanna „glæpinn“ á lyfið (sprautuna) í stað þess að ganga út frá því að nýtt ófyrirséð ástand í heilsunni sé lyfinu að kenna þangað til annað sannast.

Mér finnst á stundum kappið og dugnaðurinn við framkvæmd bólusetninganna bera forsjána ofurliði.


IV. Lyfjasagan er full af mistökum og ófyrirséðum afleiðingum af nýjum lyfjum (sem bóluefnin eru) sem tíminn hefur sýnt fram á að hafi óviðunandi aukaverkanir. Nefnum td. thaledomid, svínainnflúensubólusetningin, oxycodon-faraldurinn og fleira.

Við þurfum því að sýna hógværð og varkárni í vinnubrögðum og þau þurfa að vera hafin yfir allan vafa.

Ekki má gleyma að í húfi er líka tiltrú og traust milli almennings og stjórnvalda, um bólusetningar og frábæra sögu þeirra, sem væri ákaflega slæmt að tapa niður í óvarkárni.


Að öllu þessu samanlögðu, ágæti ráðherra, vil ég leggja til að þú alla vega frestir boði um bólusetningu 5-11 ára barna um 4-6 vikur.

Mögulega ekki þeirra barna sem skilgreind væru sem áhættuhópar varðandi Covid-19 vegna annarra sjúkdóma eins og sums staðar hefur verið lagt til sem millileið meðan frekari upplýsingar eru að safnast saman.

Við erum því ekki að falla á tíma nema síður sé og ýmsir sérfræðingar hafa einmitt varað við að vera í stórum bólusetningaherferðum í miðju flóði smits.

Það hefur á stundum hvarflað að mér í gegnum Covid-19 umræðuna að mögulega, þegar saga heilbrigðismála verður rituð síðar meir, eigi framtíðin eftir að dæma þetta Covid-19-tímabil hart, viðbrögð, bólusetningar, lyfjanotkun, lyfjaheiminn og læknisfræðina tengda honum.

Mögulega verði litið á þetta í heild sem ein af stærri lýðheilsuvarnarmistökum frá því nútímalæknavísindi hófu innreið sína. Vonandi hef ég alrangt fyrir mér.

Vona að þetta bréf mitt verði mörgum til jákvæðrar upplýsingar og rökin séu skoðuð og metin. Ef einhverjir telja þetta bréf sérstaka árás á sig þá er ég ekki að leita að sökudólgum heldur að leita að einhverju sem hægt er að sameinast um.

Við verðum að umgangast þekkingu okkar og þekkingarleysi á þessum nýja vírus af hógværð og virðingu.

Þess vegna ber að fara af varfærni í allar aðgerðir og vera alltaf viss um að skapa ekki meiri skaða með þeim en annars hefði orðið.

Höfundur er heimilislæknir.

Um höfund

Sigurlaug Ragnarsdóttir
Sigurlaug Ragnarsdóttir
✞༺(((( Ⓒilla ℜągnąℜṧ )))༻♚༺ BA Classical Art Historian || MA Culture & Media || Tourism & Sales Management || Web Design || Photo & Videographer for Tourism Magasins ༻
  • 524 Posts
  • 0 Comments
✞༺(((( Ⓒilla ℜągnąℜṧ )))༻♚༺ BA Classical Art Historian || MA Culture & Media || Tourism & Sales Management || Web Design || Photo & Videographer for Tourism Magasins ༻