Lög um refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði.- Samþykkt af Alþingi þann 18. desember 2018 - mittval.is

Lög um refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði.- Samþykkt af Alþingi þann 18. desember 2018

Þingskjal 602, 149. löggjafarþing 69. mál: refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði.
Lög nr. 144 18. desember 2018.

Lög um refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði.

1. gr.

Hópmorð.

     Hver sem fremur hópmorð skal sæta fangelsi ekki skemur en fimm ár eða ævilangt.
Eftirtaldir verknaðir teljast hópmorð þegar þeir eru framdir í þeim tilgangi að útrýma með öllu eða að hluta þjóð, þjóðernishópi, kynstofni eða trúflokki sem slíkum:

 1. að drepa einstaklinga úr viðkomandi hópi,
 2. að valda einstaklingum úr viðkomandi hópi alvarlegum líkamlegum eða andlegum skaða,
 3. að þröngva viðkomandi hópi af ásetningi til þess að búa við lífsskilyrði sem miða að líkamlegri eyðingu hópsins eða hluta hans,
 4. að beita þvingunaraðgerðum sem miða að því að koma í veg fyrir barnsfæðingar í hópnum,
 5. að flytja börn með valdi úr hópnum til annars hóps.

     Hver sem á opinberum vettvangi hvetur með beinum hætti aðra til að fremja hópmorð skal sæta fangelsi allt að ævilangt.

2. gr.

Glæpir gegn mannúð.

     Hver sem fremur glæp gegn mannúð skal sæta fangelsi ekki skemur en þrjú ár eða ævilangt.
Eftirtaldir verknaðir teljast glæpir gegn mannúð þegar þeir eru framdir af ásetningi sem hluti af víðtækri eða kerfisbundinni atlögu sem beint er gegn óbreyttum borgurum:

 1. morð,
 2. útrýming,
 3. þrælkun,
 4. brottvísun eða nauðungarflutningur íbúa,
 5. fangelsun eða önnur alvarleg frelsissvipting sem stríðir gegn grundvallarreglum þjóðaréttar,
 6. pyndingar,
 7. nauðgun, kynlífsþrælkun, þvingun til vændis, þungunar eða ófrjósemisaðgerðar eða annað álíka alvarlegt kynferðisofbeldi,
 8. ofsóknir gegn afmörkuðum hópi eða samfélagi vegna stjórnmálaskoðana, kynþáttar, ríkisfangs, þjóðernis, menningar, trúarbragða eða kynferðis eða af öðrum ástæðum sem almennt er viðurkennt að fái ekki staðist að þjóðarétti, í tengslum við einhvern þann verknað sem um getur í þessari málsgrein eða einhvern þann glæp sem tilgreindur er í lögum þessum,
 9. mannshvörf af manna völdum,
 10. kynþáttaaðskilnaður,
 11. aðrir ómannúðlegir verknaðir af svipuðum toga sem ætlað er að valda miklum þjáningum eða alvarlegu líkamstjóni eða tjóni á andlegu eða líkamlegu heilbrigði.

3. gr.

Stríðsglæpir í alþjóðlegum vopnuðum átökum.

     Hver sem fremur stríðsglæp í alþjóðlegum vopnuðum átökum skal sæta fangelsi ekki skemur en þrjú ár eða ævilangt.
Alvarleg brot á Genfarsamningunum frá 12. ágúst 1949 skulu teljast stríðsglæpir í alþjóðlegum vopnuðum átökum, nánar tiltekið einhverjir eftirtalinna verknaða gegn mönnum eða eignum sem njóta verndar samkvæmt ákvæðum viðkomandi Genfarsamninga:

 1. manndráp af ásetningi,
 2. pyndingar eða ómannúðleg meðferð, þ.m.t. líffræðilegar tilraunir,
 3. að valda af ásetningi miklum þjáningum eða alvarlegu líkams- eða heilsutjóni,
 4. umfangsmikil eyðilegging og upptaka eigna sem ekki er réttlætanleg af hernaðarnauðsyn og er framkvæmd með ólöglegum og gerræðislegum hætti,
 5. að þröngva stríðsfanga eða öðrum sem nýtur verndar til að gegna herþjónustu hjá óvinaríki,
 6. að neita af ásetningi stríðsfanga eða öðrum sem nýtur verndar um réttlát og eðlileg réttarhöld,
 7. ólögleg brottvísun eða flutningur eða ólöglegt varðhald,
 8. gíslataka.

     Auk verknaða sem taldir eru upp í 2. mgr. skulu önnur alvarleg brot á alþjóðalögum og venjum sem gilda um vopnuð átök alþjóðlegs eðlis teljast stríðsglæpir í alþjóðlegum vopnuðum átökum, nánar tiltekið einhverjir eftirtalinna verknaða:

  1. að leggja af ásetningi til atlögu gegn óbreyttum borgurum almennt eða gegn einstökum borgurum sem taka ekki beinan þátt í átökum,
  2. að ráðast af ásetningi á borgaralega hluti, þ.e. hluti sem hafa ekki hernaðarlegt gildi,
  3. að leggja af ásetningi til atlögu gegn starfsliði, stöðvum, búnaði, einingum eða ökutækjum sem notuð eru við mannúðaraðstoð eða friðargæslu í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna svo fremi að þeim beri vernd sem óbreyttum borgurum eða borgaralegum hlutum samkvæmt þjóðréttarreglum um vopnuð átök,
  4. að leggja af ásetningi til atlögu vitandi að slík atlaga geti, á tilviljunarkenndan hátt, kostað óbreytta borgara lífið eða valdið þeim líkamstjóni eða skemmt borgaralega hluti eða valdið víðtækum, langvarandi og alvarlegum umhverfisspjöllum sem augljóslega væru langt umfram raunverulegan og beinan hernaðarlegan ávinning sem vænst er,
  5. að ráðast eða varpa sprengjum, með hvaða hætti sem er, á borgir, þorp, bústaði eða byggingar sem eru óvarðar og hafa ekki hernaðarlegt gildi,
  6. að drepa eða særa hermann sem hefur lagt niður vopn eða hefur engin tök á að verja sig lengur og hefur gefist upp skilyrðislaust,
  7. að misnota griðafána, fána eða einkennismerki og einkennisbúning óvinahers eða Sameinuðu þjóðanna, svo og sérstök tákn Genfarsamninganna, þannig að leiði til dauða eða alvarlegra meiðsla á mönnum,
  8. að hernámsríki flytji, beint eða óbeint, hluta eigin óbreyttra borgara inn á hernámssvæði sitt eða vísi á brott eða flytji alla íbúa hernumda svæðisins eða hluta þeirra annaðhvort innan þess svæðis eða út fyrir svæðið,
  9. að ráðast af ásetningi á byggingar sem eru helgaðar trú, menntun, listum, vísindum eða góðgerðarstarfsemi eða á sögulega minnisvarða, sjúkrahús eða staði þar sem sjúkum og særðum er safnað saman, að því tilskildu að þessir staðir hafi ekki hernaðarlegt gildi,
  10. að láta menn sem eru á valdi óvina sinna sæta limlestingum eða læknisfræðilegum eða vísindalegum tilraunum af hvaða tagi sem er sem hvorki er unnt að réttlæta sem læknismeðferð eða meðferð hjá tannlækni eða á sjúkrahúsi né meðferð í þeirra þágu og leiða til dauða eða stofna heilsu þeirra í alvarlega hættu,
  11. að drepa eða særa menn sem tilheyra óvinaþjóð eða óvinaher með sviksamlegum hætti,
  12. að lýsa því yfir að engin grið verði gefin,
  13. að eyðileggja eða leggja hald á eignir óvinanna nema slíkt sé algjörlega óhjákvæmilegt af hernaðarnauðsyn,
  14. að lýsa yfir að afnumin séu, felld úr gildi um tíma eða lýst ótæk fyrir dómi réttindi og gerðir borgara frá óvinaríki,
  15. að neyða borgara óvinaríkis til að taka þátt í stríðsaðgerðum gegn eigin landi jafnvel þótt þeir hafi verið í þjónustu hins stríðsaðilans áður en stríðið hófst,
  16. að fara ránshendi um borg eða stað jafnvel þótt borgin eða staðurinn hafi verið tekinn með áhlaupi,
  17. að nota eitur eða eiturvopn,
  18. að nota efnavopn eða sýklavopn,
  19. að nota byssukúlur sem auðveldlega þenjast eða fletjast út í mannslíkamanum, svo sem byssukúlur með harðan hjúp sem þekur ekki allan kjarnann eða er settur skorum,
  20. að nota önnur vopn, skotfæri, efni og hernaðaraðferðir sem eru andstæð þjóðréttarreglum,
  21. að misbjóða mannlegri reisn, einkum með auðmýkjandi og niðurlægjandi meðferð,
  22. að nauðga, halda í kynlífsþrælkun, þvinga til vændis, þvinga til þungunar, framkvæma ófrjósemisaðgerð með nauðung eða fremja hvers konar annað gróft kynferðisofbeldi,
  23. að notfæra sér nærveru óbreytts borgara, eða annars manns sem nýtur verndar, til að ekki sé unnt að beita hernaðaraðgerðum gagnvart tilteknum stöðum, svæðum eða herafla,
  24. að ráðast af ásetningi á byggingar, búnað, sjúkraliðseiningar, sjúkraflutningatæki eða starfslið sem notar sérstök tákn Genfarsamninganna í samræmi við þjóðarétt,
  25. að nota vísvitandi þá hernaðaraðferð að svelta óbreytta borgara með því að svipta þá hlutum sem eru þeim ómissandi til að lifa af, þ.m.t. að koma af ásetningi í veg fyrir að þeim berist hjálpargögn, svo sem kveðið er á um í Genfarsamningunum,
  26. að kveðja í ríkisher börn undir 18 ára aldri eða skrá í ríkisher börn undir 15 ára aldri eða að láta börn undir 18 ára aldri taka virkan þátt í átökum,
  1.     þ.    að ráðast af ásetningi á stöðvar eða mannvirki sem búin eru hættulegri orku, enda sé ljóst að þess háttar árás valdi verulegu manntjóni, líkamstjóni meðal almennra borgara eða skemmdum á borgaralegum eignum,
  1.     æ.    að tefja á óréttmætan hátt heimsendingu stríðsfanga eða almennra borgara,
  1.     ö.    kynþáttaaðskilnaður og annað ómannúðlegt og auðmýkjandi framferði sem leiðir til þess að persónuleg sæmd er svívirt vegna kynþáttamisréttis.

4. gr.

Stríðsglæpir í vopnuðum átökum sem ekki eru alþjóðlegs eðlis.

     Hver sem fremur stríðsglæpi í vopnuðum átökum sem ekki eru alþjóðlegs eðlis skal sæta fangelsi ekki skemur en þrjú ár eða ævilangt.
Alvarleg brot gegn sameiginlegri 3. gr. Genfarsamninganna frá 12. ágúst 1949 skulu teljast stríðsglæpir í vopnuðum átökum sem eru ekki alþjóðlegs eðlis, nánar tiltekið einhverjir eftirtalinna verknaða gegn mönnum sem taka ekki virkan þátt í átökum, að meðtöldum einstökum hermönnum sem hafa lagt niður vopn og þeim sem eru ekki vopnfærir vegna veikinda, sára, varðhalds eða af öðrum ástæðum:

 1. ofbeldi gegn lífi og limum, einkum manndráp, limlestingar, misþyrmingar og pyndingar,
 2. að misbjóða mannlegri reisn, einkum með auðmýkjandi og niðurlægjandi meðferð,
 3. gíslataka,
 4. að dæma menn til refsingar og taka þá af lífi án þess að lögbær dómstóll sem tryggir öll þau mannréttindi sem almennt eru viðurkennd sem ófrávíkjanleg hafi áður kveðið upp dóm þar að lútandi.

     Auk verknaða sem taldir eru upp í 2. mgr. skulu önnur alvarleg brot á alþjóðalögum og venjum sem gilda um vopnuð átök sem ekki eru alþjóðlegs eðlis teljast stríðsglæpir í vopnuðum átökum sem ekki eru alþjóðlegs eðlis, nánar tiltekið einhverjir eftirtalinna verknaða:

 • að leggja af ásetningi til atlögu gegn óbreyttum borgurum almennt eða gegn einstökum borgurum sem taka ekki beinan þátt í átökum,
 • að ráðast af ásetningi á byggingar, búnað, sjúkraliðseiningar, sjúkraflutningatæki og starfslið sem notar sérstök tákn Genfarsamninganna í samræmi við þjóðarétt,
 • að leggja af ásetningi til atlögu gegn starfsliði, stöðvum, búnaði, einingum eða ökutækjum sem notuð eru við mannúðaraðstoð eða friðargæslu í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna svo fremi að þeim beri vernd sem óbreyttum borgurum eða borgaralegum hlutum samkvæmt þjóðréttarreglum um vopnuð átök,
 • að ráðast af ásetningi á byggingar sem eru helgaðar trú, menntun, listum, vísindum eða góðgerðarstarfsemi eða á sögulega minnisvarða, sjúkrahús eða staði þar sem sjúkum og særðum er safnað saman, að því tilskildu að þessir staðir hafi ekki hernaðarlegt gildi,
 • að fara ránshendi um borg eða stað jafnvel þótt borgin eða staðurinn hafi verið tekinn með áhlaupi,
 • að nauðga, halda í kynlífsþrælkun, þvinga til vændis, þvinga til þungunar, framkvæma ófrjósemisaðgerð með nauðung eða fremja hvers konar annað kynferðisofbeldi sem telst einnig til alvarlegra brota gegn 3. gr. sem er sameiginleg Genfarsamningunum fjórum,
 • að kveðja í ríkisher börn undir 18 ára aldri eða skrá í ríkisher börn undir 15 ára aldri eða að kveðja eða skrá í herflokka börn undir 18 ára aldri eða að láta börn undir 18 ára aldri taka virkan þátt í átökum,
 • að fyrirskipa flutning á óbreyttum borgurum af ástæðum sem tengjast átökunum, nema því aðeins að öryggi hlutaðeigandi borgara eða brýnar hernaðarástæður krefjist þess,
 • að drepa eða særa óvinahermann með sviksamlegum hætti,
 • að lýsa því yfir að engin grið verði gefin,
 • að láta menn sem eru á valdi annars aðila að átökunum sæta limlestingum eða gera á þeim læknisfræðilegar eða vísindalegar tilraunir af hvaða tagi sem er sem hvorki er unnt að réttlæta sem læknismeðferð eða meðferð hjá tannlækni eða á sjúkrahúsi né meðferð í þeirra þágu og leiða til dauða eða stofna heilsu þeirra í alvarlega hættu,
 • að eyðileggja eða leggja hald á eignir óvinar nema slíkt sé algjörlega óhjákvæmilegt vegna átakanna,
 • að nota eitur eða eiturvopn,
 • að nota efnavopn eða sýklavopn,
 • að nota byssukúlur sem auðveldlega þenjast eða fletjast út í mannslíkamanum, svo sem byssukúlur með harðan hjúp sem þekur ekki allan kjarnann eða er settur skorum.

5. gr.

Glæpir gegn friði.

     Hver sem fremur glæp gegn friði skal sæta fangelsi ekki skemur en þrjú ár eða ævilangt.
Til glæpa gegn friði telst áætlanagerð, undirbúningur, byrjun eða framkvæmd árásar af hálfu einstaklings sem er í stöðu til þess að hafa raunverulegt eftirlit með eða stjórna pólitískri eða hernaðarlegri aðgerð ríkis, þ.e. árásar sem vegna eðlis, alvarleika og umfangs felur í sér augljóst brot á sáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Árás skv. 2. mgr. merkir það þegar ríki beitir hervaldi gegn fullveldi, friðhelgi yfirráðasvæðis eða stjórnmálalegu sjálfstæði annars ríkis eða valdi með annarri þeirri aðferð sem ekki samrýmist markmiðum sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sérhver eftirfarandi aðgerða, án tillits til þess hvort lýst er yfir stríði eður ei, telst vera árás samkvæmt ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 3314 (XXIX) frá 14. desember 1974:

 1. innrás eða atlaga herafla ríkis inn á yfirráðasvæði annars ríkis eða hvers kyns herseta, hversu tímabundin sem hún kann að vera, sem leiðir af slíkri innrás eða atlögu, eða hvers kyns innlimun yfirráðasvæðis annars ríkis eða hluta slíks yfirráðasvæðis með valdbeitingu,
 2. sprengjuárás sem herafli ríkis gerir á yfirráðasvæði annars ríkis eða þegar ríki beitir hvers kyns vopnum gegn yfirráðasvæði annars ríkis,
 3. hafnbann eða herkví sem herafli ríkis heldur uppi við hafnir eða strendur annars ríkis,
 4. atlaga herafla ríkis að land-, sjó- eða flugher eða skipa- og flugflota annars ríkis,
 5. að beita herafla ríkis sem er innan yfirráðasvæðis annars ríkis með samþykki viðtökuríkisins þannig að brjóti gegn þeim skilyrðum sem kveðið er á um í viðkomandi samningi eða að framlengja dvöl hans á fyrrnefndu yfirráðasvæði eftir að samningurinn er úr gildi fallinn,
 6. sú aðgerð ríkis að heimila að yfirráðasvæði þess, sem það hefur ráðstafað til annars ríkis, verði nýtt af hálfu fyrrnefnds annars ríkis til þess að gera árás á þriðja ríki,
 7. þegar ríki sendir fram, eða það er gert fyrir þess hönd, vopnaða flokka, hópa, hermenn utan fastahers eða málaliða sem beita hervaldi gegn öðru ríki á svo alvarlegan hátt að jafnist á við þær aðgerðir sem eru taldar upp hér að framan eða þegar viðkomandi ríki á raunverulega aðild að slíku.

     Refsiábyrgð fyrir glæp gegn friði getur einungis sá maður borið sem er í stöðu til þess að hafa eiginlega stjórn á pólitískri eða hernaðarlegri aðgerð ríkis.

6. gr.

Ábyrgð herforingja og annarra yfirmanna.

     Herforingi eða maður sem gegnir í raun stöðu herforingja skal sæta fangelsi ekki skemur en eitt ár eða ævilangt vegna brota á lögum þessum sem framin eru af herliði sem er undir raunverulegri stjórn hans og eftirliti og þau eru afleiðing þeirrar vanrækslu hans að hafa ekki stjórn á herliðinu sem skyldi ef:

 1. herforinginn eða maðurinn annaðhvort vissi eða hefði mátt vita, miðað við aðstæður á þeim tíma, að herlið hans væri að fremja eða í þann mund að fremja slík brot og
 2. herforinginn eða maðurinn gerði ekki allar nauðsynlegar og réttmætar ráðstafanir sem í hans valdi stóðu til þess að koma í veg fyrir að brotin væru framin, til að bregðast við þeim eða leggja málið fyrir lögbær yfirvöld til rannsóknar og saksóknar.


Að því er varðar tengsl yfirmanns og undirmanns, sem ekki er lýst í 1. mgr., skal yfirmaður bera refsiábyrgð á brotum á lögum þessum sem framin eru af undirmönnum sem í raun lúta forræði hans og eftirliti og eru afleiðing þeirrar vanrækslu hans að hafa ekki stjórn á undirmönnunum sem skyldi ef:

 1. yfirmaðurinn annaðhvort vissi eða hafði vísvitandi að engu upplýsingar sem bentu greinilega til þess að undirmenn hans væru að fremja eða í þann mund að fremja slík brot,
 2. brotin tengdust starfsemi sem í raun var á ábyrgð og undir stjórn yfirmannsins og
 3. yfirmaðurinn gerði ekki allar nauðsynlegar og réttmætar ráðstafanir sem í hans valdi stóðu til að koma í veg fyrir að brotin væru framin, bregðast við þeim eða leggja málið fyrir lögbær yfirvöld til rannsóknar og saksóknar.

7. gr.

Fyrirskipanir yfirboðara og lagafyrirmæli.

     Sú staðreynd að maður hefur framið glæp sem fellur undir lög þessi samkvæmt fyrirskipun ríkisstjórnar eða yfirboðara, hvort heldur yfirboðarinn er hermaður eða óbreyttur borgari, firrir hann ekki refsiábyrgð nema:

 1. honum hafi borið lagaleg skylda til að hlýða fyrirskipunum viðkomandi ríkisstjórnar eða yfirboðara,
 2. hann hafi ekki vitað að skipunin var ólögleg og
 3. fyrirskipunin hafi ekki augljóslega verið ólögleg.

     Í skilningi þessarar greinar teljast fyrirskipanir um að fremja hópmorð eða glæpi gegn mannúð augljóslega ólöglegar.


8. gr.

Tilraun og hlutdeild.

     Tilraun eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð skv. III. kafla almennra hegningarlaga.

9. gr.

Fyrning sakar.

     Brot samkvæmt lögum þessum fyrnast ekki.

10. gr.

Gildistaka.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
Fyrir brot sem framin eru fyrir gildistöku laga þessara skal refsa á grundvelli þeirra að uppfylltum þeim skilyrðum að háttsemin hafi verið refsiverð samkvæmt íslenskum lögum á þeim tíma sem hún átti sér stað og hafi þá jafnframt að þjóðarétti talist hópmorð, glæpur gegn mannúð, stríðsglæpur eða glæpur gegn friði. Refsing skal ekki verða þyngri en heimiluð var í íslenskum lögum þá er háttsemin átti sér stað.

 

11. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

     Við gildistöku laga þessara breytast eftirfarandi ákvæði laga sem hér segir:

   1. Almenn hegningarlög, nr. 19/1940, með síðari breytingum:
    1. Við 3. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Sama gildir um brot sem falla undir lög um refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði.
    2. Við 6. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: Á grundvelli laga um refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði. Brotið skal jafnframt teljast hópmorð, glæpur gegn mannúð, stríðsglæpur eða glæpur gegn friði samkvæmt þjóðarétti. Mál samkvæmt þessum tölulið skal einungis höfða sé sá maður sem ætlunin er að sækja til sakar staddur hér á landi.
   2. Lög um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963: 2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:

  Ákvæði almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi og ákvæði laga um refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði taka einnig til ráðherra eftir því sem við getur átt.

 1. Lögreglulög, nr. 90/1996: Við 1. málsl. 2. mgr. 8. gr. laganna bætist: sem og brota gegn lögum um refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði.

Samþykkt á Alþingi 5. desember 2018.

 

 • 522 Posts
 • 0 Comments
✞༺(((( Ⓒilla ℜągnąℜṧ )))༻♚༺ BA Classical Art Historian || MA Culture & Media || Tourism & Sales Management || Web Design || Photo & Videographer for Tourism Magasins ༻