Samkvæmt Sáttmálum Óttans
Viðar Guðjohnsen skrifar;
„Fram munu koma margir falsspámenn og leiða marga í villu. Og vegna þess að lögleysi magnast mun kærleikur flestra kólna“ (Matt 14.11-12).
Umrótið
Með umrótinu er vísað til andstæðu íhaldsins. Því sem íhaldið vill halda í og varðveita vill umrótið skipta út fyrir eitthvað annað. Hugtakið „umrót“, sem fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins gerði góð skil sem andstæðu varðveislustefnunnar, er lýsandi fyrir það hugarfar og þá stefnu sem nú hefur orðið ríkjandi hjá fulltrúum allra flokka. Hugarfar sem vill eyða flestum ef ekki öllum okkar gildum, hefðum og einkennum; hvort sem um er að ræða fullveldið, réttaröryggið, tjáningarfrelsið, tungumálið, trúna, æruverndina, mannanafnahefðina, helgidagafriðinn, heilagleika hjónabandsins, virðingu fyrir hinu ófædda barni eða jafnvel hinum áður óumdeilda sannleik náttúruvísindanna um tilvist karls og konu.
Ég er sá, sem ég er
Það þarf að varpa fram þeirri spurningu um hvernig skipan samfélagsins og samskipti manna á milli þróast ef einstaklingurinn tekur sér vald Drottins og gerir sig að Guði í eigin augum. Líklega erum við farin að finna smjörþefinn af því hvað gerist ef trúin á hinn æðsta mátt hverfur. Ég er sá, sem ég er sagði Guð við Móse en þessi setning er farin að heyrast oftar í samfélaginu hjá þeim sem byggja sitt siðferði á persónulegri hentisemi hvers tíma. Skilja menn ekki að slíkt var reynt!
Gengið inn um víða hliðið
Það er óþarfi að benda á tiltekna flokka eða kjörna fulltrúa í þessu samhengi enda hafa þeir flestir sýnt algjöran undirlægjuhátt og vesaldóm upp á síðkastið. Sem dæmi ákvað ritari Sjálfstæðisflokksins nýlega að taka upp baráttumál umrótsins til lengri tíma og gerast kyndilberi í aðförinni að mannanafnanefnd og mjög einstakri hefð í nafngift barna. Á síðasta kjörtímabili hafði dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins staðið að efnislegu afnámi laga um frið vegna helgidagahalds þegar nánast allar greinar laganna voru felldar á brott. Ráðherrann taldi nauðsynlegt að verja frelsi manna til að drekka sig fulla og spila bingó á föstudaginn langa. Það var í grunninn einnig brautryðjandamál umrótsins.
Fleiri mál mætti nefna, s.s. þau lög sem heimila deyðingu á fimm mánaða barni í móðurkviði (lög nr. 43/ 2019) eða „Malakoff“-lögin svonefndu sem fjarlægðu umráðarétt manna yfir eigin líkama eftir andlát (lög nr. 58/ 2018). Að ógleymdum þeim undarlegu lögum sem í grunninn lítilsvirða ekki aðeins konur og karla heldur einnig sjálf náttúruvísindin (lög nr. 80/ 2019).
Allt eru þetta mál sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði átt að berjast gegn. Ef stjórnarsamstarfið var eitthvað sem var að vefjast fyrir mönnum hefðu menn auðvitað átt að kæfa þessi mál í nefndum.
Það er engin furða að Píratar hreyki sér af svokölluðum pírataáhrifum. Píratar hafa raunverulega náð að áorka því að láta sín umrótsfræði „seytla inn í stefnur annarra flokka“ eins og þingmaður flokksins benti á í aðalfundarræðu sinni árið 2021. Þetta sagði hún og þetta er rétt.
Helsishugtökin þrjú
Hatursorðræða, upplýsingaóreiða og falsfréttir eru þrjú hugtök sem vestrænir stjórnmálamenn hafa nýlega dregið upp úr töfrahatti sjónhverfinganna til að réttlæta hina og þessa skerðingu á tjáningarfrelsi manna um mál sem þeir vilja ekki ræða.
Þessi hugtök eru auðvitað ekki ný af nálinni. Flestir meðreiðarsveinar alræðis hafa með einum eða öðrum hætti notast við þessi sömu hugtök með það fyrir augum að kremja umræðu sem ekki er þeim þóknanleg.
Nú er svo komið að það telst til hatursglæps að benda á að konan ein getur orðið móðir. Það er auðvitað ekkert annað en skoðanakúgun sem minnir á hin fáránlegu réttarhöld yfir Galíleó Galílei.
Fyrir þá sem ekki þekkja réttarhöldin yfir Galíleó þá snerust þau um sólmiðjukenninguna. Páfagarður taldi jarðmiðjukenninguna hina einu réttu. Galíleó neyddist til að afneita sólmiðjukenningunni og lýsa því yfir opinberlega að jörðin væri kyrrstæð og að allt annað snerist í kringum hana. Höfum þetta hugfast þegar okkur er sagt að það þurfi að refsa fyrir hina og þessa skoðanaglæpi.
Samkvæmt sáttmála óttans
Í miklu riti Solsénítsíns um Gúlag-þrælkunarbúðirnar er fjallað um þá samfélagslegu geðveiki sem hreiðraði um sig í Ráðstjórnarríkjunum. Bókstaflega allir lugu að öllum í þeirri von að myrkrið myndi ekki ná þeim og að klikkunin myndi bara hverfa. Þetta hugarfar afneitunar var ekkert nema sjálfsblekking. Auðvitað náði myrkrið öllum að lokum og hið illa vann því góðir menn yfirgáfu sannleikann. Það hafði alvarlegar afleiðingar að menn létu undan óttanum og tóku þátt í ríki lyga. Sagan hefur sýnt það margoft, eins og vel er að orði komist í Biblíunni, að vítt er hliðið og breiður er vegurinn sem liggur til glötunarinnar, og að margir eru þeir sem ganga inn um það.
Það þarf því miður ekki mikið meira en að góðir menn hjúfri um sig í heigulskap og hjarðhegðun til þess að hið illa eflist. Alræði umrótsins lifir í lyginni og með þátttöku veikgeðja manna er hægt og bítandi verið að hola að innan okkar mikilvæga burðarvirki laga og réttar.
Höfundur er lyfjafræðingur og sjálfstæðismaður.
Um höfund
- ✞༺(((( Ⓒilla ℜągnąℜṧ )))༻♚༺ BA Classical Art Historian || MA Culture & Media || Tourism & Sales Management || Web Design || Photo & Videographer for Tourism Magasins ༻
Síðustu færslur
- Óflokkað30. maí, 2024GLÚMUR SEGIR ARNAR ÞÓR VERA MEÐ VITLAUSAR SKOÐANIR
- GLÆPUR GEGN MANNKYNI9. janúar, 2024Janet Ossebaard, höfundur heimildarmyndarinnar “The fall of the Cabal” fannst látin á jóladag
- Sameinuðu Þjóðirnar28. desember, 2023Lestrarefni Menntamálastofnunar: Varúð hér býr vampíra – auðlesin sögubók á léttu máli og bókinni fylgir verkefnahefti sem hægt er að vinna samhliða lestri.
- Heimsmarkmiðin27. desember, 2023Hin raunverulega merking og innhald 17 Heimsmarkmiða (UN) Sameinuðu þjóðanna