KÁRI Í JÖTUNMÓÐ

Ævisöguritun
Guðni Th. Jóhannesson
Mergur málsins er einfaldlega sá, segir Guðni Th. Jóhannesson, að Kári Stefánsson á afskaplega erfitt með að taka gagnrýni.
KÁRI Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur látið þung orð falla um bók mína um hann og fyrirtækið. Í bókinni er saga ÍE rakin og ítrekað að Kári eigi mestan heiður. En enginn má vera yfir gagnrýni hafinn. Oflof er háð.Kári Stefánsson hefur fundið að því að bókin hafi verið skrifuð á “nokkrum vikum”. Það er eðli bóka um mál í brennidepli að þær eru unnar á stuttum tíma. Samt skrifar enginn bók á nokkrum vikum. Þetta eru dæmigerðar ýkjur hjá Kára.
Ég er auk þess algerlega ósammála þeirri skoðun, sem kom fram í Kastljósi ríkissjónvarps í síðustu viku, að í bókinni sé Kára lýst á svipaðan hátt og gert var í harðorðri grein í þýska vikuritinu Spiegel. Þvert á móti er hvorki reynt að draga manninn í svaðið né hefja hann til skýjanna, og oft eru það vinir Kára eða hann sjálfur sem segja frá. Í þeim fjölmörgu viðtölum, sem Kári Stefánsson hefur veitt á liðnum árum, gantast hann með að hann sé “frekur og fullur af vindi”, og þar fram eftir götunum. Í bókinni kalla skólafélagar Kára hann vel gefinn og sérlega góðan sögumann, “hæfilega lyginn”. Hann sé “nærri því að vera tvær manneskjur, annars vegar ljúfur og skemmtilegur en hins vegar öllu hrjúfari, svo jaðrar stundum við dramb”.
Kára er sagt þetta hér til fróðleiks, því þrátt fyrir gífuryrði um bókina í Kastljósi kvaðst hann ekki hafa lesið hana. Ónefndum samstarfsmönnum hans hefði hins vegar talist til að á fyrstu hundrað blaðsíðunum væri að meðaltali ein villa á hverri síðu! Þessi illmæli eiga sér ekki stoð, og það er með endemum að efnilegur og vinsæll vísindamaður, sem kveðst í einu orði vilja halda í heiðri siðareglur og nákvæmni fræðanna, skuli í því næsta vera með sleggjudóma í skjóli einhverra huldumanna, af þvílíkri heift sem raun ber vitni.
Eru bókarkaflar af námi og fyrri störfum Kára Stefánssonar óþörf hnýsni í einkalíf hans? Sjálfur hefði ég tæplega komist á snoðir um flest sem bókin fjallar um, hefði Kári ekki fyrst sagt frá sjálfur, með sínu nefi. Eigin frásagnir fólks eru ekki endilega besti vitnisburðurinn. Hér má benda á þær umræður sem urðu um kafla í ævisögu Steingríms Hermannssonar. Bókin um Kára og ÍE var ekki skrifuð að undirlagi hans og fyrirtækisins, og er frekar trúverðugri vegna þess. Einnig eru sagðar fréttir hvern einasta dag án þess að fyrst sé leitað samþykkis þess sem fjallað er um, enda væri slíkt út í hött. Loks eru skoðanaskipti Kára Stefánssonar og Þorgeirs Örlygssonar árið 1997 fróðleg í þessu sambandi. Þorgeir var þá formaður Tölvunefndar og velti fyrir sér hvað gera ætti þegar friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsið rækjust á. Hann spurði hvort friðhelgin ætti ekki að vera sterkari, en það gagnrýndi Kári: “Er formaður Tölvunefndar að boða þá skoðun að nú megi ekki fjalla um einstaklinga í fjölmiðlum án þeirra leyfis og blessunar nefndarinnar?”
Þrátt fyrir allt hefur Kári Stefánsson haldið því fram að hann hafi ekkert á móti því að rætt sé um deilumál tengd ÍE. Alveg í upphafi, löngu áður en hann gat reynt að halda því fram að bókin væri skrifuð á nokkrum vikum með villu á hverri síðu, var þó ljóst að hann var eindregið á móti skrifunum. Hann bannaði starfsmönnum sínum að ræða við mig og hafði samband við ýmsa aðra með sama í huga. Mergur málsins er einfaldlega sá að Kári Stefánsson á afskaplega erfitt með að taka gagnrýni. Og kannski kann hann því best að einungis eindregnir fylgjendur sem fátt draga í efa, eða hatrammir andstæðingar sem reynst hefur auðvelt að saka um öfund og þröngsýni, fjalli um hann og hans fyrirtæki.
Í bók minni er stuðst við heimildir. Þegar hún birtist fetti Kári fingur út í að “oft” væri vitnað í ónafngreinda heimildarmenn, væntanlega að sögn ónafngreindu heimildarmannanna hans sjálfs. Á Íslandi og víðar eru bækur skrifaðar og fréttir fluttar þar sem nafnlausum heimildum er treyst. Ég notaði tilvísanir í bókinni, alls rúmlega sex hundruð. Af þeim voru sex nafnlausar. Loks veit Kári Stefánsson jafnvel og ég, og líklega meirihluti Íslendinga, að fleira er sagt um hann en er að finna í þessari bók. “Ég hef heyrt alveg hinar ótrúlegustu kjaftasögur um mig um allan bæ,” sagði hann í einu viðtalinu. Þessar sögur er ekki að finna í bókinni.
Ekki er rúm hér til að rekja frásögn bókarinnar af gerð gagnagrunnsfrumvarpsins og samningum við svissneska lyfjafyrirtækið Hoffmann-La Roche. Þar segir þó meðal annars frá því að allnokkru áður en þing og þjóð frétti af frumvarpinu virtust ráðamenn Roche vissir um að þeir myndu njóta góðs af gagnagrunni, enda gaf að minnsta kosti einn ráðherra þeim það sterklega til kynna. Að mati lesaranna á Lynghálsi er þetta örugglega villa því Kári hefur alltaf fullyrt að engin tengsl hafi verið milli grunnsins og Roche.
Þá virðast sumir halda að í bókinni sé fullyrt að Kári hafi skrifað gagnagrunnsfrumvarpið frá upphafi til enda. Það er ekki rétt. Upphafið var hjá deCODE, endirinn í heilbrigðisráðuneytinu. Engu að síður dró það dilk á eftir sér að í byrjun fékk Kári einn að móta þann lagaramma sem síðan var unnið eftir. Ég er þess fullviss að hefðu stjórnvöld reynt að taka ráðin af Kára Stefánssyni þegar gagnagrunnsfrumvarpið var í vinnslu og sannfært hann um að leita yrði einhvers konar samþykkis fólks fyrir því að gögn rynnu í grunninn, hefði mun minni styrr staðið um hann og ÍE nyti nú góðs af því, einkum erlendis.
Í bókinni er bent á að Kári hafi stundum þótt ýkjukenndur í fregnum af velgengni fyrirtækisins. Mótraka hans er einnig getið. Dæmi hver fyrir sig, en hér í lokin verður aðeins minnt á síðustu yfirlýsingu Kára Stefánssonar um áfangasigra Íslenskrar erfðagreiningar. Um miðjan október í fyrra fullyrti hann að ÍE hefði staðsett meingen nokkurra algengra sjúkdóma og yrði það líklega tilkynnt formlega innan mánaðar. Allir góðviljaðir menn vona að þær væntingar, sem eru bundnar við rannsóknir fyrirtækisins, rætist að fullu. En við verðum að geta trúað og treyst forstjóra þess.
Höfundur er sagnfræðingur.
Um höfund

- ✞༺(((( Ⓒilla ℜągnąℜṧ )))༻♚༺ BA Classical Art Historian || MA Culture & Media || Tourism & Sales Management || Web Design || Photo & Videographer for Tourism Magasins ༻
Síðustu færslur
Crime Against Humainty2023.05.08THRIVE: What On Earth Will It Take?
Glæpur Gegn Íslenskum Börnum2023.05.05Til varnar tjáningarfrelsinu – Að stimpla „rangar skoðanir“ sem hatur mun leiða orðræðuna til glötunar
Glæpur Gegn Íslenskum Börnum2023.05.03Flokkast BARNAGIRND og BARNANÍÐ undir Kynheilbrigði hjá Kennarasambandi Íslands?
Kristín Þormar2023.05.02Vel heppnaður fundur með skólastjóra Smáraskóla í Kópavogi – Plaköt með „kynfræðslu“ fyrir börn fjarlægð úr Smáraskóla